Haukar með fjögurra stiga forskot á toppnum

Haukar eru í toppsætinu.
Haukar eru í toppsætinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu 28:22-sigur á KA er liðin mættust í 13. umferð Olísdeildar karla í handbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Haukar eru taplausir í toppsæti deildarinnar með 23 stig, fjórum meira en Afturelding sem er í öðru sæti. 

KA náði þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 9:6, en Haukar voru fljótir að jafna og var staðan í hálfleik 11:11. Jafnræði var með liðunum framan af í seinni hálfleik en eftir því sem leið á hálfleikinn náðu Haukar betri völdum á leiknum og unnu að lokum öruggan sigur. 

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Haukum með sjö mörk og þeir Atli Már Báruson, Adam Haukur Baumruk og Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoruðu allir fjögur mörk. 

Daníel Örn Griffin var atkvæðamestur hjá KA með sex mörk og Sigþór Gunnar Jónsson og Allan Nordberg skoruðu þrjú hvor. KA er í áttunda sæti með níu stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert