Krefjandi að spila gegn Fram-uppskrift

Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði 4 mörk í dag.
Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði 4 mörk í dag. mbl.is/Hari

Landsliðskonan, Þórey Rósa Stefánsdóttir, var ánægð með sigur Fram á Val í Olís-deildinni í handknattleik í dag en benti á að Valur hafi saknað öflugra leikmanna. 

Fram sigraði 24:19 og hafði undirtökin á löngum á köflum í leiknum. „Við bættum í vörnina í seinni og náðum þá einnig að keyra svolítið á þær. Við vorum aðeins grimmari en það vantaði náttúrlega sterka leikmenn hjá þeim í dag. Þetta var samt hörkuleikur. Valur virðist vera með uppskrift til að spila á móti Fram sem mér finnst virka svolítið vel hjá Gústa (Ágústi Jóhannssyni þjálfara Vals). Þær hafa lesið okkur vel og eru vel skipulagðar. Fyrir vikið er krefjandi að spila á móti þeim.“

Vörnin var sterk hjá Fram í leiknum í dag og sóknarlotur Vals urðu stundum vandræðalegar. „Já þær urðu kannski svolítið óöruggar. Við náðum að hóta svolítið í vörninni. Hafdís var auk þess frábær í markinu hjá okkur og það skilaði sigrinum.“

Fram er á toppnum með þriggja stiga forskot á Val. „Við höfum skilað okkar finnst mér til þessa í deildinni og höfum landað góðum sigrum. Við lentum um daginn í hörkuleik gegn ÍBV sem ég gæti trúað að við hefðum tapað fyrir ári síðan en mér finnst við vera sterkari andlega á þessu tímabili. Hópurinn er flottur og við keyrum á þetta eftir áramót,“ sagði Þórey Rósa ennfremur við mbl.is í Safamýrinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert