Ljónin upp að hlið toppliðsins

Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir Löwen í dag.
Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir Löwen í dag. Ljósmynd/Rhein-Neckar Löwen

Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann 28:21-heimasigur gegn Göppingen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag. Staðan í hálfleik var jöfn, 13:13, en Ljónin sigu hægt og rólega fram úr í seinni hálfleik og unnu sannfærandi sigur í leikslok.

Kristján Andrésson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen sem fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 24 stig eftir sextán leiki. Ljónin eru með jafn mörg stig og Flensburg og topplið Kiel sem vann 29:27-heimasigur gegn Minden.

Kiel er í efsta sæti deildarinnar með 24 stig, líkt og Flensburg og Rhein-Neckar Löwen en Kiel á tvo leiki til góða á bæði Flensburg og Löwen. Þá unnu Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Erlangen 25:22-sigur gegn Leipzig á heimavelli en Erlangen er í þrettánda sætinu með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert