Þriðji sigur ÍBV kom gegn HK

Sunna Jónsdóttir var atkvæðamikil í liði ÍBV og skoraði sjö …
Sunna Jónsdóttir var atkvæðamikil í liði ÍBV og skoraði sjö mörk. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

ÍBV vann sinn þriðja leik á tímabilinu þegar liðið fékk HK í heimsókn í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í dag. Leiknum lauk með 33:29-sigri ÍBV sem leiddi með einu marki í hálfleik, 14;13.

Eyjakonur voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu mest fimm marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn, 10:5. HK tókst hins vegar að laga stöðuna fyrir hálfleik og var forysta Eyjakvenna eitt mark í hálfleik. ÍBV náði snemma fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik, 22:18, en HK vann sig aftur inn í leikinn og tókst að jafna metin í 24:24 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. ÍBV var hins vegar sterkara á lokakaflanum og fagnaði sigri í leikslok.

Sunna Jónsdóttir, Ester Óskarsdóttir og Ásta Björg Júlíusdóttir fóru mikinn fyrir ÍBV í dag og skoruðu sjö mörk hver. Þá varði Darja Zecevic 15 skot í marki ÍBV og var með 36% markvörslu. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var langmarkahæst í liði HK með níu mörk og þær Ágústa Hulda Gunnarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir skoruðu fimm mörk hvor. Sara Sif Helgadóttir varði 9 skot í marki HK.

ÍBV fer með sigrinum í 7 stig en liðið er áfram í sjöunda sæti deildarinnar, nú tveimur stigum frá Haukum eftir ellefu leiknar umferðir. HK er áfram í fjórða sætinu með 10 stig, líkt og KA/Þór.

mbl.is