Danir galopnuðu riðilinn enn frekar

Daninn Louise Burgaard brýst í gegnum vörn Hollendinga í leiknum …
Daninn Louise Burgaard brýst í gegnum vörn Hollendinga í leiknum í dag. AFP

Danir unnu sinn fyrsta leik í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í dag en danska liðið sigraði Holland, 27:24, í leik sem var að ljúka í Kumamoto.

Hollendingum mistókst þar með að komast í efsta sæti riðilsins og nú eru Þórir Hergeirsson og hans konur í norska landsliðinu með fæst stig töpuð í riðlinum en þær mæta Suður-Kóreu í lokaleik fjórðu og næstsíðustu umferðar klukkan 11.30.

Þýskaland er með 5 stig, Noregur 4, Holland 4, Serbía 4, Danmörk 3 og Suður-Kórea 2 stig. Ekki er aðeins sæti í undanúrslitunum í húfi, þangað sem tvö efstu liðin fara, heldur einnig sæti í undankeppni Ólympíuleikanna þannig að þriðja sæti riðilsins getur skipt gríðarlega miklu máli.

Danir voru með undirtökin allan tímann í leiknum í dag og Sandra Toft markvörður var þeirra besti leikmaður með 19 varin skot. Danir komust í 11:6 og 14:9 í fyrri hálfleik. Holland minnkaði muninn í eitt mark seint í leiknum en danska liðið jók forskotið á ný og innbyrti sanngjarnan sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert