Ekkert fær stöðvað Valslestina

Magnús Óli Magnússon sækir að marki FH-inga á Hlíðarenda í …
Magnús Óli Magnússon sækir að marki FH-inga á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anton Rúnarsson fór mikinn fyrir Valsmenn sem unnu eins marks sigur gegn FH í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 29:28-sigri Vals en Anton gerði sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk í leiknum.

Jafnfræði var með liðunum á fyrstu fimm mínútum leiksins þar sem þau skiptust á að skora. Ásbjörn Friðriksson kom Hafnfirðingum þremur mörkum yfir, 8:5, eftir tíu mínútna leik og FH-ingar héldu áfram að þjarma að Hlíðarendaliðinu. Jón Bjarni Ólafsson kom FH fjórum mörkum yfir, 11:7, þegar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum en þá vöknuðu Valsmenn. Anton Rúnarsson jafnaði metin fyrir Val í 11:11 með stórglæsilegu marki utan teigs og eftir það tóku Valsmenn völdin á vellinum. Anton kom Valsmönnum fjórum mörkum yfir, 16:12, þegar tvær mínútur voru til leiksoka en Einar Rafn Eiðsson minnkaði muninn í tvö mörk, 16:14, þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Valsmenn brunuðu upp í sókn og Anton skoraði lokamark fyrri hálfleiks og sá til þess að Valsmenn færu með þriggja marka forystu inn í hálfleik, 17:14.

FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og það tók þá einungis þrjár mínútur að jafna metin í 17:17 þegar Einar Rafn Eiðsson átti þrumuskot fyrir utan sem söng í netinu. Skömmu síðar datt Agnar Smári Jónsson í gang í liði Valsmanna. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur mörk í röð og Anton Rúnarsson kom Valsmönnum svo fjórum mörkum yfir, 23:19, af vítalínunni eftir 42 mínútna leik. Ásbjörn Friðriksson minnkaði muninn í eitt mark fyrir Hafnfirðinga á 47. mínútu, 23:22 en Ýmir Örn Gíslason kom Valsmönnum aftur þremur mörkum yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Liðin skiptust á að skora en Valsmenn gerðu vel í að halda Hafnfirðingum fyrir aftan sig og unnu að lokum sanngjarnan sigur.

Finnur Ingi Stefánsson og Agnar Smári Jónsson skoruðu sex mörk hvor í liði Valsmanna og þá átti Hreiðar Levý Guðmundsson mjög góðan leik í markinu og varði alls 15 skot. Ásbjörn Friðriksson var atkvæðamestur í liði FH með 10 mörk og Phil Döhler varði 11 skot í markinu. Valsmenn, sem voru að vinna sinn sjöunda deildarleik í röð, fara með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 17 stig en FH er áfram í fjórða sætinu með 16 stig.

Valur 29:28 FH opna loka
60. mín. Birkir Fannar Bragason (FH) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert