Fimmtán skot í höfuðið á þremur mánuðum

Lárus Helgi Ólafsson markvörður.
Lárus Helgi Ólafsson markvörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram í Olísdeild karla í handknattleik, segist í samtali við Morgunblaðið velta æ meira fyrir sér hvaða afleiðingar það geti haft fyrir sig að fá ítrekað skot í höfuðið á ferli sínum sem handknattleiksmaður. Keppnistímabilið er ekki hálfnað en Lárus áætlar engu að síður að hann hafi fimmtán sinnum fengið boltann í höfuðið í leikjunum til þessa.

„Ég tel að ég hafi fengið um það bil fimmtán skot í höfuðið í leikjum á þessu keppnistímabili. Ég held að það sé nærri lagi. Ég hafði fengið níu skot í andlitið í fyrstu fimm til sex leikjunum. Það er oftar en venjulega, hvað sem því veldur,“ sagði Lárus þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.

Lárus hafði birt færslu á Twitter þar sem hann hafði orð á þessu. Lárus veltir því fyrir sér hvort það hafi eitthvað með tækni hans sem markvarðar að gera. Hann þyki ef til vill betri að verja skot niðri heldur en þau sem koma uppi á markið.

„Ég velti því fyrir mér hvort stíll minn sem markvarðar sé þannig að ég sé meira opinn í kringum höfuðið. Þess vegna fái ég á mig skot þar í kring en ég hef hugsað út í alls kyns atriði í tengslum við þetta.“

Lárus hefur enn sem komið er ekki fundið fyrir alvarlegum afleiðingum en höfuðverkur hefur þó látið á sér kræla.

Sjá viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert