Þórir í undanúrslitin gegn Spánverjum

Hin norska Stine Bredal Oftedal brýst í gegnum vörn Þýskalands …
Hin norska Stine Bredal Oftedal brýst í gegnum vörn Þýskalands í leiknum í dag. AFP

Norðmenn, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, mæta Spánverjum í undanúrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Japan og Rússar mæta Hollendingum.

Það er niðurstaðan eftir tvo síðustu leiki milliriðlakeppninnar sem var að ljúka en þar unnu Norðmenn sigur á Þjóðverjum í úrslitaleik í milliriðli eitt, 32:29, og Svartfellingar sigruðu Svía, 26:23, í milliriðli tvö. Sænska liðið hefði með sigri komist í undanúrslit á kostnað Spánverja.

Norska liðið var með undirtökin gegn Þjóðverjum mestallan tímann og náði nokkrum sinnum fimm marka forystu en þýska liðið náði ítrekað að minnka muninn í eitt til tvö mörk. Þjóðverjum hefði nægt jafntefli, þá hefðu bæði liðin farið áfram og Hollendingar verið úr leik.

Kari Skaar Brattset lék afar vel á línunni hjá norska liðinu og skoraði 6 mörk úr jafnmörgum tilraunum. Emilie Hegh Arntzen, Stine Bredal Oftedal og Marit Jacobsen gerðu sín 5 mörkin hver og Silje Solberg varði 14 skot í markinu. Emily Bolk var atkvæðamest hjá Þjóðverjum með 6 mörk.

Noregur fékk 8 stig í milliriðli 1, Holland 6, Serbía 5, Þýskaland 5, Danmörk 4 og Suður-Kórea 2 stig.

Rússland fékk 10 stig í milliriðli 2, Spánn 7, Svartfjallaland 6, Svíþjóð 5, Japan 2 og Rúmenía ekkert.

Undanúrslitaleikirnir fara fram á föstudaginn og þá er einnig leikið um 5. og 7. sætið. Serbar og Svartfellingar spila um fimmta sætið og Þjóðverjar mæta Svíum í leiknum um 7. sætið.

Þrjú efstu liðin í hvorum riðli hafa tryggt sér sæti í undankeppni fyrir Ólympíuleikana en heimsmeistararnir munu komast þangað án þess að fara í undankeppnina. Leikur Þýskalands og Svíþjóðar um 7. sætið verður jafnframt úrslitaleikur um sæti í undankeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert