Íslendingarnir fóru á kostum

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði níu mörk líkt og Teitur Örn …
Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði níu mörk líkt og Teitur Örn Einarsson í Svíþjóð í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson áttu sannkallaðan stórleik fyrir Kristianstad þegar liðið fékk Helsingborg í heimsókn í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Leiknum lauk með 29:25-sigri Kristianstad en þeir Ólafur og Teitur gerðu sér lítið fyrir og skoruðu 9 mörk hvor í leiknum.

Íslendingarnir voru langmarkahæstu leikmenn síns liðs en staðan í hálfleik í Kristianstad var 11:9, Helsingborg í vil. Kristianstad fer með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar í 24 stig og er nú með jafn mörg stig og Ystads sem er í þriðja sætinu. Kristianstad á hins vegar tvo leiki til góða á Ystads, sem og topplið Alingsås sem er með 30 stig í efsta sætinu.

Þá varði Ágúst Elí Björgvinsson tvö skot í marki Sävehof sem vann 27:25-heimasigur gegn Lugi en Sävehof er í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig eftir 17 leiki. Aron Dagur Pálsson komst svo ekki á blað hjá Alingsås sem tapaði óvænt á heimavelli fyrir Redbergslids, 27:25.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert