Holland komið í úrslitaleikinn á HM

Estevana Polman fagnar einu marka sinna gegn Rússum í dag.
Estevana Polman fagnar einu marka sinna gegn Rússum í dag. AFP

Hollendingar leika til úrslita um heimsmeistaratitil kvenna í handknattleik í Japan á sunnudaginn og mæta þar annaðhvort Norðmönnum eða Spánverjum.

Holland lagði hið öfluga lið Rússlands að velli, 33:32, í æsispennandi leik sem var hnífjafn allan tímann. Staðan var 16:16 í hálfleik og það var Laura van der Heijden sem skoraði sigurmark hollenska liðsins tíu sekúndum fyrir leikslok.

Þetta verður í annað sinn sem Holland leikur til úrslita um heimsmeistaratitilinn en liðið tapaði fyrir Þóri Hergeirssyni og hans konum í norska liðinu árið 2015. Nú gæti sú viðureign verið endurtekin á sunnudaginn en það skýrist á eftir. Leikur Noregs og Spánar hefst klukkan 11.30.

Leikstjórnandinn Estavana Polman var í lykilhlutverki hjá Hollendingum og skoraði 9 mörk. Anna Vijakhireva var öflugust í rússneska liðinu og skoraði 11 mörk.

Holland hefur nú lagt bæði Noreg og Rússland að velli á mótinu en fyrirfram áttu flestir von á að tvö síðarnefndu liðin myndu mætast í úrslitaleiknum.

Anastasiia Illarionova reynir skot að marki Hollendinga.
Anastasiia Illarionova reynir skot að marki Hollendinga. AFP
mbl.is