„Ég hef ekki áhyggjur af framhaldinu“

Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn.
Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Heilt yfir þá var þetta frábær handboltaleikur. Við erum að spila hrikalega góðan leik og þess vegna er svekkjandi að fá ekkert út úr þessu,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, sem tapaði 33:31 gegn Val í úrvalsdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

„Þetta féll með þeim. Við erum óheppnir, setjum víti í gólfið og slána á lokakaflanum og það eru fleiri augnablik þarna sem detta með Valsliðinu. Ég get ekki fundið neitt eitt sem réð úrslitum, þetta var bara jafn og góður leikur. Við erum ekki með mikla breidd í okkar hópi og þess vegna finnst mér við vera að leysa þetta mjög vel við erfiðar aðstæður,“ sagði Grímur sem fer nokkuð sáttur með sitt lið inn í jólafríið.

„Ég hef ekki áhyggjur af framhaldinu. Við höldum áfram að æfa og svo fara menn að koma úr meiðslum þannig að breiddin mun aukast. Burtséð frá úrslitum leiksins þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af framhaldinu ef við höldum áfram á þessari braut,“ sagði Grímur að lokum.

mbl.is