Hollendingar heimsmeistarar í fyrsta sinn

Tess Wester fagnar í leikslok eftir að Holland varð heimsmeistari …
Tess Wester fagnar í leikslok eftir að Holland varð heimsmeistari í fyrsta sinn. AFP

Holland er heimsmeistari kvenna í handknattleik eftir 30:29-sigur á Spáni í úrslitaleiknum í Kumamoto í Japan. Þetta er fyrsti stóri titill kvennaliðs Hollendinga frá upphafi.

Hvorugt lið hafði hreppt stóran titil í kvennahandbolta áður en Holland fékk silfur á heimsmeistaramótinu 2015 og brons 2017. Það voru hins vega þær spænsku sem hófu leikinn mun betur og náðu 6:2-forystu snemma leiks. Þær hollensku náðu svo að snúa taflinu við fyrir hlé en þær skoruðu sex af síðustu átta mörkum hálfleiksins og voru 16:13 yfir í hálfleik.

Hollendingar héldu forystunni alveg fram á næstsíðustu mínútu leiksins þegar Marta Herrero Lopez jafnaði metin fyrir Spánverja sem voru mest fjórum mörkum undir. Hollendingar fengu hins vegar síðustu sóknina og Lois Abbingh skoraði úrslitamarkið sex sekúndum fyrir leikslok úr vítakasti til að tryggja Hollendingum sinn fyrsta heimsmeistaratitil. Abbingh skoraði sjö mörk og var næstmarkahæst, ásamt Alexandrinu Barbosa frá Spáni, en Estavana Polman skoraði níu mörk fyrir hollenska liðið.

Spánverjar urðu því að sætta sig við silfurverðlaun en Rússland hreppti bronsið fyrr í dag með því að leggja Noreg að velli en Þórir Hergeirsson þjálfar norska liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert