KA vann í markaleik

Frá leiknum á Akureyri í dag.
Frá leiknum á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir

KA og Fjölnir áttust við í snjónum á Akureyri í dag í Olís-deild karla í handbolta. Fyrir leik var Fjölnir með fimm stig í næstneðsta sætinu. KA var tveimur sætum ofar með níu stig. Leikurinn var því mikilvægur í baráttu liðanna við að halda sér í deildinni en jafnframt að koma sér í úrslitakeppnina. Eftir gríðarlegan markaleik, sem sveiflaðist til og frá, þá voru það heimamenn í KA sem fögnuðu sigri 35:32. KA eltir því Stjörnuna og er með 11 stig en staða Fjölnis versnaði töluvert við þetta tap.

KA byrjaði leikinn virkilega vel og var vörn heimamanna sérlega góð. Fjölnismenn lentu í vandræðum sókn eftir sókn og áður en varði stóð 5:0 fyrir KA. Fjölnir tók leikhlé eftir rúmar fimm mínútur í stöðunni 4:0 og virðist sem Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, hafi afhent sínum mönnum lykil sem gekk að KA-vörninni. Eftir leikhléið skoraði Fjölnir mörk án þess að hafa mikið fyrir þeim. KA missti aðeins dampinn en hélt gestunum þó í hæfilegri fjarlægð með öflugum og hröðum sóknarleik. Segja má að mörkunun hafi kyngt niður og staðan var 20:15 í hálfleik. Varnir liðanna taka þetta háa skor á sig en markverðirnir voru allir að verja þokkalega. Jovan Kukobat var t.a.m. með 9 varin skot í fyrri hálfleiknum.

Og áfram hélt mörkunum að snjóa. Níu mörk komu á fimm fyrstu mínútunum í seinni hálfleik og KA tók leikhlé í stöðunni 23:21. Fjölnir jafnaði svo fljótlega leikinn, 23:23. Jafnt var á öllum tölum upp í 27:27 en þá rikkti KA aftur frá Fjölnismönnum. Staðan var 32:29 þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum og þá tók Fjölnir leikhlé. Þremur og hálfri mínútu síðar var enn orðið jafnt, 32:32. KA-menn skoruðu þrjú síðustu mörkin og tryggðu sér sigurinn í blálokin.

Sigþór Gunnar Jónsson var í fantaformi hjá KA ásamt Daníel Griffin en aðrir voru nokkuð frá sínu besta. Hjá Fjölni steig Goði Ingvar Sveinsson upp í seinni hálfleiknum og raðaði inn mörkum. Breki Dagsson og Brynjar Óli Kristjánsson voru einnig drjúgir en aðrir voru ekki að sýna neinn stórleik.

KA 35:32 Fjölnir opna loka
60. mín. Leik lokið Þvílíkur spennutryllir. KA mer þetta eftir mikinn darraðadans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert