Stjarnan skellti toppliði Hauka

Tandri Már Konráðsson átti stórleik fyrir Stjörnuna í dag.
Tandri Már Konráðsson átti stórleik fyrir Stjörnuna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan skellti toppliði Hauka, 32:24, í TM höllinni í Garðabæ í 14. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag. Stjörnumenn náðu forystunni snemma, héldu henni til loka og unnu sannfærandi sigur þar sem Tandri Már Konráðsson var atkvæðamikill.

Stjarnan var fyrir leik með níu stig í 8. sæti, 14 stigum frá Haukum sem eru á toppnum og voru ekki búnir að tapa leik. Tandri Már Konráðsson var drjúgur fyrir heimamenn, skoraði sjö mörk og var einn besti varnarmaður vallarins en Leó Snær Pétursson skoraði sex fyrir Stjörnuna og Andri Þór Helgason fimm.

Orri Freyr Þorkelsson var langmarkahæstur Hauka með átta mörk en gestirnir náðu sér aldrei á strik í átta marka tapinu. Brynjólfur Snær Brynjólfsson, Vignir Svavarsson, Atli Már Báruson og Ólafur Ægir Ólafsson voru allir með þrjú mörk fyrir Hauka. Stjarnan fer upp í 11 stig en Haukar eru sem fyrr með 23 stig á toppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert