„Við klikkum á færum í restina“

Kári Garðarsson ræðir við sína menn í dag.
Kári Garðarsson ræðir við sína menn í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis í Olís-deild karla í handbolta, þurfti að sætta sig við tap gegn KA í miklum markaleik í dag. Heimamenn í KA unnu leikinn 35:32 með því að skora þrjú síðustu mörkin. KA var reyndar yfir nánast allan leikinn en Fjölnir jafnaði nokkrum sinnum og var í séns fram á síðustu mínútu.

„Við veittum KA ekki mikla mótspyrnu í fyrri hálfleik. Þeir keyrðu á fullu gasi á okkur og skoruðu 20 mörk. Ég er hins vegar mjög ánægður með strákana í seinni hálfleiknum. Við komum til baka, breyttum um vörn og náðum nokkrum stoppum og markvarslan kom líka. Þar eru jákvæðu hlutirnir og við eigum alveg möguleika á lokafjórðungnum að ná einhverju út úr þessum leik. Það sem skildi á milli er að við klikkum á færum í restina“

Þessi leikur var nánast endurtekning á síðasta leik ykkar, gegn HK. Þið eigið séns í lokin en klárið ekki færin.

„Því miður þá er það svo og við nýtum ekki síðustu færin. Á meðan við náum ekki í stig þá er það ekki gott. Við erum þó með þessi fimm stig og í baráttu enn þá, erum alveg inni í þessu. Nú er það bara þessi rúmi mánuður framundan og við erum að fara í þessa klisju sem allir þjálfararnir fara að tala um eftir þessa umferð. Nú er að nýta janúarmánuð vel. Við eigum gríðarlega mikilvæga leiki strax eftir hléið, gegn Fram og Stjörnunni. Það er eins gott að við komum klárir í þá.“

Þú ert þá feginn að fá hléið núna.

„Já í rauninni. Það er búin að vera mikil leikjatörn. Þetta er keyrt dálítið hratt og vissulega er alltaf gaman að spila leikina en ég tel að þetta sé gott fyrir okkur. Við erum með meidda leikmenn, eins og mörg önnur lið, sem þurfa að ná sér. Það er markmiðið að ná þeim til baka og svo bara að vinna í okkar hlutum og vera tilbúnir þegar mótið byrjar aftur í lok janúar.“

Ein persónuleg spurning í lokin. Þú ert búinn að koma í KA-heimilið nokkrum sinnum eftir að þú fluttir suður, bæði sem leikmaður og þjálfari. Er þetta í fyrsta skipti sem þú kemur með lið þitt til að spila gegn KA í efstu deild?

„Já ég er alveg viss um það. Ég kom hingað sem þjálfari kvennaliðs Gróttu og spilaði gegn KA/Þór. Svo var ég leikmaður Gróttu/KR sem kom að spila hér gegn KA, í gamla daga, kannski árið 2003 eða eitthvað svoleiðis. Þá var KA enn þá til en síðan liðu mörg ár án þeirra. Auðvitað er gaman að koma í KA-heimilið en það er hundfúlt að tapa hérna, bara eins og á öðrum stöðum.“

Þér leiðist nú varla að horfa hér upp á veggina til að skoða myndir af sjálfum þér og liðsfélögunum í Íslandsmeistaraliðum KA í yngri flokkunum.

„Titlana tel ég nú ekki á fingrum beggja handa, skal ég segja þér en það eru einhverjar myndir af mér hérna, frá því að ég var ungur og myndalegur. Það er ekki í dag“ sagði Kári brosmildur í lok viðtalsins en blaðamaður getur vitnað um það að Kári hefur ekkert breyst á tuttugu árum hvað svo sem honum sjálfum finnst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert