„Verður fróðlegt“

Erlingur Birgir Richardsson er mættur með hollenska landsliðið á stórmót …
Erlingur Birgir Richardsson er mættur með hollenska landsliðið á stórmót í fyrsta sinn í sögu karlalandsliðsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson er mættur með hollenska landsliðið til Noregs en í dag mætir Holland liði Þýskalands þegar EM karla í handknattleik hefst. Um tímamót er að ræða hjá Hollendingum því karlaliðið er í fyrsta skipti á EM og hefur aðeins einu sinni áður komist í lokakeppni stórmóts en það var á HM 1961. Kvennalandslið Hollands hefur hins vegar látið að sér kveða á undanförnum árum og er núverandi heimsmeistari.

„Þetta er stórt skref fyrir þennan hóp því þetta er í fyrsta sinn sem þeir fara á stórmót. Þetta er því nýtt fyrir alla mína leikmenn og við erum í riðli með sigurvegurum síðustu tveggja Evrópumóta: Spáni og Þýskalandi. Þetta er því stórt verkefni en við verðum að nota tækifærið og njóta þess að vera hérna á stóra sviðinu,“ sagði Erlingur þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Eftirvæntingin er skiljanlega mikil og tilfinningarnar flæddu um fundarherbergið þegar Erlingur tilkynnti hverjir skipa leikmannahópinn á EM.

„Þegar ég tilkynnti hópinn eftir vináttuleiki í Sviss á sunnudaginn þá grétu menn bara til skiptis á öxlinni hver á öðrum. Sumir vegna vegna þess að þeir fengu þær fréttir að þeir færu ekki á EM og svo aðrir vegna þess að þeir höfðu beðið eftir þessu tækifæri nánast allan sinn feril. Þarna voru miklar tilfinningar og það lýsir því kannski best hversu mikla þýðingu þetta hefur. Þarna sá maður hversu stórt þetta er fyrir þessa stráka.“

Markið var sett á EM

Liðum hefur verið fjölgað í lokakeppni EM og Erlingur segir að markið hafi verið sett á að komast á EM þegar undankeppnin hófst. Jafnvel þótt Holland hafi aldrei komist á EM og aðeins einu sinni á HM. Hann nefnir hins vegar að eftir því sé tekið að Holland sé nú með bæði landslið sín á stórmóti og kvennaliðið í fremstu röð.

„Þau skilaboð sem ég fékk voru að markmiðið væri að liðið kæmist á EM. Einnig spilaði inn í að liðum væri fjölgað í keppninni. Við vorum í hörkukeppni í riðlinum og töpuðum til að mynda gegn Slóveníu á heimavelli með eins marks mun í leik þar sem við vorum lengi vel yfir. Setti það okkur í þá stöðu að þurfa að vinna Letta heima með nokkrum mun. Þá var nokkur pressa en okkur tókst að vinna leikinn og komast áfram.“ 

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert