Enn hægt að fá miða á næstu leiki landsliðsins

Íslenska liðið fagnar vel og innilega í leikslok í kvöld.
Íslenska liðið fagnar vel og innilega í leikslok í kvöld. AFP

Enn er hægt að fá miða á næstu leiki íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í handbolta, en íslenska liðið keppir í Malmö í Svíþjóð. Handknattleikssamband Íslands á enga miða, en enn virðist eitthvað vera af óseldum miðum í gegnum hefðbundna miðasölu í Svíþjóð.

Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ, segir í samtali við mbl.is að því miður eigi sambandið ekki lengur miða. Nokkrar fyrirspurnir hafi komið til sambandsins eftir glæstan sigur liðsins á heims- og ólympíumeistaraliði Dana fyrr í kvöld.

Vefurinn Ticketmaster í Svíþjóð sér um sölu miða á keppnina, en keyptur er miði fyrir allan daginn í hverri höll fyrir sig. Þannig er næsti leikur Íslands gegn Rússlandi á mánudaginn, en sama dag fer fram leikur Dana og Ungverja. Þá keppa Íslendingar á móti Ungverjum á miðvikudaginn, en sama dag keppa Danir á móti Rússum.

Með leit á vef Ticketmaster sést að enn eru miðar lausir á völlinn þessa daga, en ódýrasti miðinn virðist vera á um 500 sænskar krónur, eða um 6.500 íslenskar krónur, hvorn dag. Til að komast á leikinn þarf líka að vera flug út í boði. Samkvæmt vef Icelandair virðist vera hægt að komast út til Kaupmannahafnar fyrir um 17 þúsund krónur á sunnudaginn, svo dæmi sé tekið.

Keppnisþyrstir aðdáendur íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem eru æstir í að sjá strákana spila eftir frammistöðuna í dag ættu því ekki að lenda á of mörgum hindrunum sé vilji til að fara út.

mbl.is