Ekki hissa á að Ísland skyldi sigra Danmörku

Rússinn Dmitrii Zhitnikov skýtur að marki Ungverja í tapleiknum í …
Rússinn Dmitrii Zhitnikov skýtur að marki Ungverja í tapleiknum í Malmö á laugardaginn. AFP

Serbei Gorbok, einn reyndasti leikmaður rússneska landsliðsins í handknattleik og fyrrverandi lærisveinn Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara, kveðst ekki undrandi á því að Íslendingar skyldu leggja Dani að velli í fyrstu umferð E-riðils Evrópukeppninnar í Malmö á laugardaginn.

Rússar og Íslendingar mætast í algjörum lykilleik í riðlinum klukkan 17.15 í dag en Rússar töpuðu fyrir Ungverjum, 25:26, á laugardaginn og eru því með bakið upp við vegg fyrir leikinn.

„Ég er alls ekki hissa á úrslitunum í leik Danmerkur og Íslands. Sigurinn er ávöxtur af starfi þjálfarans Guðmundar Guðmundssonar, sem hefur unnið með liðið í tæp tvö ár. Hann þekkir Danina vel því hann leiddi þá til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó. Ég var svo heppinn að leika undir hans stjórn hjá Rhein-Neckar Löwen og veit hversu öflugur þjálfari hann er,“ segir Gorbok í viðtali á vef rússneska handknattleikssambandsins.

Gorbok var spurður út í Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson, hina þrautreyndu leikmenn íslenska liðsins sem eru 40 og 39 ára gamlir.

„Það er erfitt að ímynda sér íslenska landsliðið án þessara leikmanna, enda þótt Alex hafi ekki spilað með liðinu í meira en þrjú ár. Við þekkjumst vel, spiluðum saman í Búndeslígunni, og hann sagði mér að löngunin til að spila aftur fyrir Ísland hefði kviknað eftir að sonur hans fór að spila með íslenska drengjalandsliðinu í fótbolta,“ sagði Gorbok.

mbl.is