Erlingur lauk leik gegn Evrópumeisturunum

Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í dag.
Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í dag. AFP

Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska karlalandsliðinu í handbolta luku leik á EM í dag með 25:36-tapi gegn ríkjandi Evrópumeisturum Spánverja í Þrándheimi. 

Holland, sem var að leika á sínu fyrsta Evrópumóti, lýkur leik með tvö stig úr C-riðli en Spánn og Þýskaland eru komin áfram. 

Kay Smits skoraði átta mörk fyrir Hollendinga og er hann markahæstur á mótinu ásamt Mykola Bilyk og Sander Sagosen með 22 mörk. Jorge Maqueda skoraði sex fyrir Spánverja, sem fara með tvö stig í milliriðla. 

Króatar fara sömuleiðis með tvö stig í milliriðla, en þeir unnu 24:21-sigur á Serbum í Graz. Króatar unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum nokkuð sannfærandi. 

Domagoj Duvnjak og Luka Stepancic skoruðu fimm mörk hvor fyrir Króatíu og Lazar Kukic og Bogdan Radivojevic gerðu fjögur mörk hvor fyrir Serbíu. Hvíta-Rússland fer með Króatíu í milliriðla og Serbía og Svartfjallaland eru úr leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert