Íslendingar komnir áfram

Ungverjar og Danir skildu jafnir.
Ungverjar og Danir skildu jafnir. AFP

Ísland er komið áfram í milliriðla á EM karla í handbolta, þrátt fyrir að enn sé ein umferð eftir í riðlakeppninni, eftir að Danir og Ungverjar skildu jafnir, 24:24, í síðari leik dagsins í E-riðli í Malmö.

Danir verða að vinna Rússa og treysta á að Íslendingar vinni Ungverjaland til að fara áfram í milliriðla. Annars verða það Ungverjar sem fylgja Íslendingum áfram. 

Ungverjar komust yfir snemma leiks og héldu forskotinu nánast allan leikinn. Munurinn varð mestur fjögur mörk, 10:6. Staðan var 23:21 þegar skammt var eftir, en þá skoruðu Danir þrjú mörk í röð og komust í 24:23. Zoltan Szita jafnaði í 24:24 og þar við sat. 

Mikkel Hansen fékk tækifæri til að skora sigurmarkið í lokin en Roland Mikler varði frá honum. Í kjölfarið fengu Ungverjar átta sekúndur í lokasókninni, en tókst ekki að koma skoti á markið. 

Zsolt Balogh skoraði sjö mörk fyrir Ungverja og Magnus Bramming gerði sex fyrir Dani. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert