Segja Dani hafa gert sig að fíflum

Dönum hefur ekki gengið vel á EM hingað til.
Dönum hefur ekki gengið vel á EM hingað til. AFP

Danir eru aðeins með eitt stig eftir tvo leiki á EM karla í handbolta. Danska liðið tapaði fyrir Íslandi í fyrsta leik og var svo heppið að ná jafntefli við Ungverjaland í dag.

Danska pressan er allt annað en sátt við frammistöðu liðsins til þessa, en Danir verða að treysta á að Ísland vinni Ungverjaland á miðvikudag til að eiga einhvern möguleika á að komast áfram í milliriðla. 

Blaðamaður Berlingske skefur ekki af hlutunum og segir Dani hafa gert sig að fíflum á mótinu til þessa. Á sama tíma biðlar hann til Íslands um að koma stóra bróður til aðstoðar og vinna Ungverja. 

Ekstrabladet hefur ekki sérstaklega mikla trú á að Ísland vinni Ungverjaland í síðasta leik og það sé erfitt að treysta á íslenska liðið.

BT þurfti aðeins eitt orð til að lýsa sínu áliti á frammistöðu danska liðsins til þessa. „Vandræðalegt, vandræðalegt, vandræðalegt,“ segir í umfjöllun miðilsins.

mbl.is