Stórsigur gegn Rússum

Ísland burstaði Rússland 34:23 í annarri umferð E-riðils á Evrópumóti karla í handknattleik í Malmö Arena í sænsku borginni Malmö í dag. Ísland hefur þá unnið fyrstu tvo leiki sína í mótinu. 

Ísland vann Danmörku 31:30 í fyrstu umferðinni á laugardaginn en Rússland tapaði 25:26 fyrir Ungverjalandi. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í milliriðil. Danmörk og Ungverjaland mætast klukkan 19.30 í kvöld. Danir þurfa að vinna þann leik til að koma í veg fyrir að Ísland tryggi sér sæti í milliriðli í kvöld. Önnur úrslit í þeim leik þýða að Ísland er komið áfram þótt liðið eigi eftir að mæta Ungverjalandi í riðlinum. 

Íslensku landsliðsmennirnir léku við hvern sinn fingur í dag og engin þreytumerki sjáanleg þrátt fyrir spennuleikinn gegn Dönum á laugardag. Þvert á móti virðist sigurinn á Dönum hafa skilað enn meiri krafti í liðið sem afgreiddi rússneska liðið á fagmannlegan hátt. 

Íslendingar tóku fljótt afgerandi frumkvæði í leiknum. Okkar menn voru ágengir í vörninni og settu Rússa strax í vandræði á þeim enda vallarins. Sóknin var jafnframt öguð eins og gegn Dönum og Rússar fengu fyrir vikið nánast engin hraðaupphlaup framan af leik. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 18:11 fyrir Ísland. 

Ísland komst í 5:1, 9:3 og 15:6 í fyrri hálfleik. Forystuna var níu mörk þegar mest var strax í fyrri hálfleik og lítið bit í rússneska birninum í klónum á Íslendingunum. 

Íslenska liðið missti aldrei dampinn að neinu ráði í síðari hálfleik. Upphafsmínúturnar í síðari hálfleik voru ekki góðar en íslenska liðið fann fljótt taktinn á ný og afgreiddi leikinn af fagmennsku. Þegar sprækir varamenn voru inn á á lokakaflanum jókst forskotið og fór upp í ellefu mörk eins og úrslitin sýna. 

Allir nema fyrirliðinn komu við sögu

Þær breytingar urðu á liðinu að Sigvaldi Björn og Bjarki Már léku í hornunum en Guðjón Valur og Arnór Þór fengu hvíld. Þeir spiluðu á hinn bóginn 60 mínútur gegn Dönum. Arnór kom inn á og tók víti í dag, líkt og Bjarki gerði gegn Dönum. Sagvaldi og Bjarki sýndu hvað í þeim býr. Sigvaldi skoraði 6 mörk úr hægra horninu og Bjarki 6/2 mörk. Allir leikmenn Íslands nema Guðjón fyrirliði komu við sögu í leiknum í dag. 

Björgvin lék lengst af í markinu. Hann varði 8 skot í fyrri hálfleik og lék þá mjög vel og alls varði hann 10 skot. Ungi maðurinn Viktor Gísli fann sig mjög vel í markinu á lokakaflanum og varði þá 6/1 skot. 

Ýmir og Elvar léku í miðri vörninni með Aron og Alexander sitt hvoru megin við sig. Vörnin var enn betri en gegn Dönum og sóknarleikur Rússa varð oft vandræðalegur. Lykilatriði gegn rússneska liðinu var að ná strax góðu forskoti því þá hagnast Rússarnir ekki á því að spila langar sóknir eins og þeir vilja gera við vissar aðstæður.

Í sókninni skaut Aron ekki mikið á markið og var tekinn úr umferð á köflum. Hann sér þó allt sem gerist í kringum sig og lét aðra njóta þess þegar Rússarnir lögðu mikla áherslu á að stöðva hann. Alexander sótti mun meira á vörnina en gegn Dönum og átti frábæran leik. Hann lét Rússana hafa stanslaust fyrir sér og skoraði 6 mörk. 

Janus Daði átti mjög góðan leik á miðjunni og nýtti skofærin vel. Hann kom fyrr inn á en gegn Dönum. Elvar átti ekki sinn besta leik í sókninni en er orðinn geysilega mikilvægur í vörninni. 

Í síðari hálfleik fékk Viggó tækifæri í skyttustöðunni hægra megin. Hann nýtti það svo vel að mótshaldarar völdu hann mann leiksins. Viggó braust hvað eftir annað í gegnum vörnina og skoraði 4 mörk auk þess að fá vítaköst. 

Kári var á línunni eins og gegn Dönum en þar komu einnig Ýmir og Arnar Freyr við sögu. Arnar kom inn á á lokaflanum eins og Haukur Þrastarson og léku sínar fyrstu mínútur í mótinu. 

Guðmundur hefur því náð að gefa öllum tækifæri í upphafi móts og allir því búnir að ná úr sér hrollinum. 

Staðan skýrist betur í kvöld

Staða Íslands er góð en eftir leik Dana og Ungverja verður einfaldara að spá í spilin. Fari svo að Danir vinni Ungverja og Ungverjar vinni Íslendinga þá verður allt í hnút hjá þessum þremur liðum. 

Spilamennska íslenska liðsins er hefur hins vegar verið í hæsta gæðaflokki og allir leikmenn liðsins eru heilir og komnir í takt við mótið. Leikurinn gegn Ungverjalandi verður því mjög fróðlegur á miðvikudag. 

Með þessum sigri jafnaði Ísland sinn stærsta sigur þegar kemur að lokakeppni EM. Ísland vann Sviss einnig með ellefu marka mun á EM 2002. Þá var Guðmundur einnig þjálfari liðsins og Guðjón Valur Sigurðsson spilaði þann leik. 

Ísland 34:23 Rússland opna loka
60. mín. Leik lokið Ísland burstaði Rússland.
mbl.is

Bloggað um fréttina