„Þetta var aldrei í hættu“

Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis í dag.
Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis í dag. AFP

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var afar kátur eftir 34:23-stórsigur á Rússlandi í öðrum leik liðsins á EM í Malmö í dag. Ísland er með fullt hús stiga í E-riðli eftir sigur á Danmörku í fyrsta leik. 

„Ég fékk mjög mikið út úr leiknum,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is. „Ég var mjög ánægður með varnarleikinn okkar, hann var frábær. Sóknarleikurinn var stórkostlegur framan af en svo hikstaði hann aðeins þegar þeir breyttu um vörn.“

Ánægður með leikinn heilt yfir

„Það tók okkur óþarflega langan tíma að stilla saman strengina, við vorum búnir að búa okkur undir þetta. Við náðum svo tökum á þessu og þegar upp var staðið var þetta aldrei í hættu og staðreyndin er ellefu marka sigur.“

Bjarki Már Elísson kom sterkur inn í stað Guðjóns Vals …
Bjarki Már Elísson kom sterkur inn í stað Guðjóns Vals Sigurðssonar. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Ég er mjög ánægður með leikinn heilt yfir. Varnarleikurinn var frábær og var ánægður með að geta spilað á öllu liðinu og hvílt lykilleikmenn, það var mjög mikilvægt. Það komu inn menn sem stóðu sig frábærlega; báðir hornamennirnir og Viggó gerðu frábæra hluti o.s.frv. Það var mjög jákvætt,“ sagði Guðmundur. 

Bjarki Már Elísson og Sigvaldi Björn Guðjónsson byrjuðu í hornunum í stað þeirra Guðjóns Vals Sigurðssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar, sem byrjuðu gegn Dönum. Guðmundur tók ákvörðun um að skipta um hornamenn með þessum hætti fyrir mótið.

„Það var fyrir mótið. Þetta var alltaf planið. Það verður að koma í ljós hvort ég skipti þeim í hálfleik eða hvernig það verður, það fer eftir frammistöðu,“ sagði Guðmundur, sem hrósaði svo Viktori Gísla Hallgrímssyni, sem stóð sig gríðarlega vel í markinu eftir að hann kom inn fyrir Björgvin Pál Gústavsson. 

Íslenska liðið fagnar í leikslok.
Íslenska liðið fagnar í leikslok. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Viktor Gísli var frábær líka og það var mjög ánægjulegt að sjá hann með 80% markvörslu og það var frábært að sjá hann koma inn og verja mjög góða bolta úr dauðafæri.“

Með besta markvarðarþjálfara í heimi

Guðmundur er ánægður með samvinnu Viktors og Björgvins Páls Gústavssonar og svo Tomas Svensson markmannsþjálfara. 

„Björgvin og Viktor vinna mjög vel saman og síðan erum við með stórkostlegan markvarðarþjálfara í Tomasi Svensson. Hann er að mínu mati besti markvarðarþjálfari í dag. Það er enginn vafi á því og hann hjálpar gríðarlega mikið til, bæði meðan á leik stendur og svo í undirbúningi fyrir leik. Það fer mikil vinna í að undirbúa markmennina og vonandi uppskerum við eftir því í framhaldinu.“

Viktor Gísli Hallgrímsson kom sterkur inn í lokin.
Viktor Gísli Hallgrímsson kom sterkur inn í lokin. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Ísland mætir Ungverjalandi í síðasta leik sínum í riðlinum á miðvikudaginn kemur. Þegar fréttin er skrifuð eru Ungverjar með 21:19-forskot gegn Dönum. Takist Ungverjum að vinna eru Íslendingar og Ungverjar komnir áfram og Danir úr leik. 

„Þetta er frábært lið, það er enginn vafi á því. Það verður mjög erfitt að vinna þá. Við gerum okkur grein fyrir því. Einhverjir héldu að þeir spili hægt, en svo er ekki. Þeir spila mjög hratt og eru aggresívir og með frábært lið á öllum sviðum,“ sagði Guðmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert