Ómetanlegt fyrir ungu strákana

Sigvaldi Björn Guðjónsson átti mjög góðan leik fyrir íslenska liðið …
Sigvaldi Björn Guðjónsson átti mjög góðan leik fyrir íslenska liðið í gær og skoraði sex mörk. Ljósmynd/EHF

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, sat fyrir svörum á blaðamannafundi landsliðsins í Malmö í dag. Íslenska liðið vann ellefu marka sigur gegn Rússlandi í E-riðli Evrópumótsins í Malmö í gær og mætir Ungverjalandi á morgun en Ísland hefur nú þegar tryggt sér sæti í milliriðlum.

Margir ungir leikmenn fengu tækifæri gegn Rússlandi í leiknum í gær og Guðjón Valur viðurkennir að reynslan sem þeir hafi öðlast á mótinu sé ómetanleg. „Það er ómetanlegt fyrir þessa ungu stráka að fá þessar mínútur,“ sagði fyrirliðinn. „Það er eitt að vera hluti af hópnum og svo annað að skila sínu inni á vellinum fyrir liðið.“

„Þeir hafa sýnt það með sinni frammistöðu að það er hægt að treysta á þá og leita til þeirra og það er mikilvægt, ekki bara fyrir þá sjálfa heldur líka fyrir aðra leikmenn liðsins og þjálfarann. Við höfum sýnt það í fyrstu tveimur leikjum mótsins að það er nánast hægt að toga í hvern sem er í hópnum og það eru allir klárir,“ bætti Guðjón Valur við.

mbl.is