„Ungverjarnir klassa betri en Rússar“

Viggó Kristjánsson sækir að marki Rússa í Malmö í gær.
Viggó Kristjánsson sækir að marki Rússa í Malmö í gær. Ljósmynd/EHF

Viggó Kristjánsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, býst við erfiðum leik á morgun þegar Ísland mætir Ungverjalandi í E-riðli Evrópumótsins í Malmö. Viggó sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag, ásamt landsliðsþjálfaranum Guðmundi Þórði Guðmundssyni, Guðjóni Val Sigurðssyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni.

„Það var gaman að fá tækifæri til þess að spila,“ sagði Viggó á fundinum í morgun en hann skoraði fjögur mörk úr fimm skotum og var valinn maður leiksins í leikslok. „Leikurinn gegn Rússum er búinn og núna færist öll okkar einbeiting yfir á leikinn gegn Ungverjalandi. Ungverjar eru klassa ofar en Rússar og þetta verður því mjög erfiður leikur,“ bætti Viggó við.

Íslenska liðið er í efsta sæti E-riðils með 4 stig og fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína. Ísland er komið áfram í milliriðla eftir að Danir og Ungverjar gerðu jafntefli í gær. Það er hins vegar mikið undir í leiknum á morgun því fari svo að Ísland vinni fer liðið með tvö stig inn í milliriðla. Leikurinn á morgun hefst klukkan 17:15 að íslenskum tíma.

mbl.is