Valdi handboltann fram yfir fótboltann

Viggó Kristjánsson sækir að marki Rússa í leiknum í gær.
Viggó Kristjánsson sækir að marki Rússa í leiknum í gær. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Viggó Kristjánsson átti frábæran leik fyrir íslenska karlalandsliðið í handknattleik þegar liðið vann 34:23-sigur gegn Rússlandi í E-riðli Evrópumeistaramótsins í Malmö í gær. Viggó kom inn á í seinni hálfleik, skoraði fjögur mörk úr fimm skotum, og var valinn maður leiksins í leikslok en þetta voru hans fyrstu landsliðsmörk á stórmóti með íslenska liðinu.

Viggó var afar efnilegur knattspyrnumaður á sínum tíma en hann er uppalinn hjá Gróttu á Seltjarnarnesi. Árið 2012 gekk hann til liðs við Breiðablik en var lánaður sama ár til ÍR þar sem hann lék 15 leiki í 1. deildinni og skoraði eitt mark. Hann lék svo með Breiðabliki í efstu deild, sumarið 2013, þar sem hann kom við sögu í tólf leikjum.

Þá á hann að baki átta landsleiki fyrir yngri landslið Íslands en hann gekk til liðs við Gróttu á nýjan leik árið 2014, kláraði tímabilið með Seltirningum og lagði svo knattspyrnuskóna á hilluna. Hann lék með Gróttu í efstu deild í handboltanum sama ár og samdi svo við Randers í Danmörku árið 2016. Þaðan lá leið hans til Austurríkis til West Wien árið 2017 þar sem hann lék í tvö ár.

Hann gekk svo til liðs við þýska 1. deildarliðið Leipzig fyrir þetta tímabil en stoppaði stutt þar og samdi við Wetzlar í nóvember. Hann mun svo ganga til liðs við Stuttgart í Þýskalandi eftir tímabilið en þessi örvhenta skytta er einungis 26 ára gömul og á því framtíðina fyrir sér í handboltanum eftir sex ára knattspyrnuferil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert