Mikilvæg stig í boði gegn Ungverjum

Sigvaldi Björn Guðjónsson skorar fyrir Ísland í sigurleiknum gegn Rússum.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skorar fyrir Ísland í sigurleiknum gegn Rússum. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Leikurinn gegn Ungverjum á Evrópumóti karla í handknattleik í dag er mikilvægur fyrir margra hluta sakir. Vinni Ísland þá fer Ísland með tvö stig í milliriðil og er þá tveimur stigum á undan Ungverjalandi, sem er í kapphlaupi við Íslendinga og fleiri um að komast í undankeppni Ólympíuleikanna í apríl.

Vinni Ungverjar snýst dæmið við og þeir fara þá með tvö stig í milliriðil en Ísland ekkert. Skýringin er sú að liðin taka ekki með sér stigin gegn liðunum sem ekki komast áfram. Í því tilfelli væru það Danir og Rússar en ljóst er að Rússar munu sitja eftir.

Fari svo að Ísland og Ungverjaland geri jafntefli fara þau með sitt stigið hvort í milliriðil og Danir sitja eftir. Þá væru Ungverjarnir búnir að safna fjórum stigum í riðlinum en Danir geta í besta falli náð þremur stigum með því að vinna Rússa. Ísland og Ungverjaland tækju þá með sér hvort sitt stigið, jafnvel þótt Ísland verði þá í efsta sæti riðilsins með fimm stig af þeim ástæðum sem áður var minnst á.

Ungverjaland vann Rússland með eins marks mun og sá leikur þróaðist á allt annan hátt en leikur Íslands og Rússlands. Ungverjar höfðu frumkvæðið gegn Dönum lengi vel en tókst ekki að landa sigri og liðin gerðu jafntefli, 24:24.

Vörn og markvarsla virtist vera í góðu lagi hjá Ungverjum gegn Dönum. Segja má að liðið hafi varist Dönum enn betur en Íslendingar gerðu en sóknarleikur Ungverja gegn Dönum var ekki eins góður og sóknarleikur Íslands gegn Dönum.

Hafa oft tekist á

Karlalandslið Íslands og Ungverjalands hafa mæst glettilega oft á stórmótum en þessi lið hafa oft verið á svipuðu getustigi. Fyrst mættust þjóðirnar á stórmóti árið 1958 þegar Ísland var með í fyrsta skipti á HM og Ungverjar unnu 19:16. Ekki verður hjá því komist að nefna þá staðreynd að Ungverjar hafa tvívegis slegið Íslendinga út í 8-liða úrslitum á stórmótum eftir mikla spennuleiki. Í báðum tilfellum hafði Ísland spilað mjög vel. Annars vegar á HM í Japan 1997 og hins vegar á Ólympíuleikunum í London 2012.

Íslendingar hafa líka oft haft betur í viðureignum liðanna. Í fyrsta leiknum á HM 2011 vann Ísland góðan sigur og sigurinn á HM 1993 var sætur eftir frábæran lokakafla. Þá vann Ísland einnig sigur á Ungverjalandi þegar HM fór fram á Íslandi 1995 þótt niðurstaðan í mótinu hafi verið vonbrigði. Einn mikilvægasti sigurinn gegn Ungverjalandi kom líklega á ÓL 1992 en þá lék Ísland um verðlaun í framhaldinu. Hér hafa nokkur dæmi verið nefnd um sigra og ósigra gegn Ungverjum en er ekki tæmandi upptalning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »