Ungverjar ná í hornamann í stað skyttu

István Gulyás breytir liði sínu fyrir leikinn gegn Íslandi í …
István Gulyás breytir liði sínu fyrir leikinn gegn Íslandi í dag. AFP

István Gulyás, þjálfari ungverska landsliðsins í handknattleik, hefur gert breytingu á liði sínu fyrir leikinn gegn Íslandi í dag en þjóðirnar mætast í toppuppgjöri E-riðils Evrópumótsins í Malmö klukkan 17.15.

Donát Bartók, samherji Bjarka Más Elíssonar hjá Lemgo í Þýskalandi sem er örvhent skytta, víkur og örvhenti hornamaðurinn Bálint Fekete, leikmaður Cuenca á Spáni, kemur í staðinn.

Fekete er 24 ára gamall og hefur aðeins leikið tvo landsleiki en Bartók á tólf landsleiki að baki.

Þá hefur Nikolaj Jacobsen þjálfari Dana gert breytingu fyrir leikinn gegn Rússum í kvöld. Hornamaðurinn Magnus Landin kemur í staðinn fyrir Lasse Andersson.

mbl.is