Hættur eftir þrjá ósigra á Evrópumótinu

Eduard Koksharov á hliðarlínunni í Malmö.
Eduard Koksharov á hliðarlínunni í Malmö. AFP

Eduard Koksharov er hættur störfum sem þjálfari rússneska karlalandsliðsins í handknattleik en hann sagði upp í gær í kjölfarið á þremur ósigrum í jafnmörgum leikjum á Evrópumótinu í Malmö.

Rússar töpuðu 25:26 fyrir Ungverjum, 23:34 fyrir Íslendingum og 28:31 fyrir Dönum og eru því úr leik án þess að fá stig í E-riðlinum.

„Ég get ekki haldið áfram með liðið því ég náði ekki þeim árangri sem ég stefndi að, enda þótt ég væri tilbúinn til að takast á við það. Ég óska liðinu margra stórra sigra í framtíðinni og ég er viss um að því á eftir að vegna vel,“ segir Koksharov á vef rússneska handknattleikssambandsins.

Hann hefur verið þjálfari liðsins í hálft þriðja ár en Koksharov var sjálfur lengi einn besti handknattleiksmaður Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert