Má ekki gegn svona sterku liði

Aron Pálmarsson reynir að komast í gegnum vörn Slóvena.
Aron Pálmarsson reynir að komast í gegnum vörn Slóvena. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Við nýttum okkur ekki veikleika þeirra nægilega vel,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir 30:27-tap gegn Slóveníu í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í dag.

Slóvenska liðið var með yfirhöndina nánast allan leikinn en þeir leiddu með einu marki í hálfleik, 15:14. Slóvenar náðu mest sex marka forskoti í síðari hálfleik en íslenska liðinu tókst að vinna sig aftur inn í leikinn en þegar upp var staðið voru Slóvenar einfaldlega of sterkir.

„Við skorum 27 mörk en samt sem áður fannst mér við vera í vandræðum sóknarlega í þessum leik. Það er erfitt að koma til baka á móti svona liði, þeir eru mjög klókir og eitt af þeim liðum sem eru einna best í því í heiminum í dag að vera með yfirhöndina í svona leikjum. Við gáfumst hins vegar aldrei upp en það er virkilega súrt að fá ekkert út úr þessum leik. Við ætluðum okkur miklu meira en við byrjum skelfilega og það má ekki gegn svona liði.“

Dean Bombac, leikmaður Slóvena, reyndist íslenska liðinu afar erfiður en hann skoraði níu mörk í leiknum.

„Hann er frábær leikmaður sem fékk að gera það sem hann vildi í dag. Það gekk allt upp hjá honum í leiknum og okkur tókst ekki að stoppa hann. Það er ein aðalástæðan fyrir því að þeir unnu.“

Þetta var fjórði leikur íslenska liðsins á átta dögum en Aron segist ekki ætla að nota þreytu sem einhverja afsökun eftir tap dagsins.

„Við erum búnir að spila fjóra leiki á átta dögum og auðvitað kemur smá þreyta í menn. Ég var nokkuð ferskur í dag og maður er ekki að fara nota þreytu sem einhverja afsökun,“ bætti Aron við.

mbl.is