Örvinglaðir Danir í Malmö

Danskir stuðningsmenn.
Danskir stuðningsmenn. AFP

Þúsundir Dana vita ekki hvort þeir eigi að nýta miða sem þeir hafa þegar fest kaup á í leiki í milliriðli II á EM karla í handknattleik í Malmö eða reyna að losa sig við þá. 

Danir voru áberandi í Malmö í riðlakeppninni enda innan við hálftíma að ferðast þangað frá höfuðstaðnum Kaupmannahöfn.  

Danir eru heims- og ólympíumeistarar og stuðningsmenn liðsins renndi ekki í grun að svo gæti farið að liðið kæmist ekki í milliriðla á EM. Þar af leiðandi höfðu þúsundir Dana þegar tryggt sér miða á leikina í milliriðlinum sem einnig er í Malmö. 

Danskir fjölmiðlar fjalla um þetta í gær og í dag. Þar kemur fram að allt að 20 þúsund Danir eigi miða á leiki einhverja þeirra fjóra keppnisdaga sem leikið er í milliriðli. Að sögn Joachim Boldsen, fyrrverandi landsliðsmanns sem starfar fyrir fjölmiðil á mótinu, hafa margir Danir reynt að selja sína miða en gengur illa. Hafa miðar verið auglýstir á vefsíðum í Danmörku en einnig í Noregi en Norðmenn leika í milliriðlinum. 

Haft er eftir Frank Ström, markaðsstjóra EM, að nú sé veruleg hætta á að mörg sæti verði auð á leikjunum í milliriðlinum. 

Sally Jacobsen, formaður stuðningsmannaklúbbs danska landsliðsins, dregur hvergi úr og segir að fólk sé í miklu uppnámi. Margir hafi grátið örlög sín og danska liðsins. Jacobsen sá til að mynda ekki danska liðið á EM því formaðurinn keypti miða í milliriðil og undanúrslitin. 

mbl.is