Sögulegt tækifæri á gullverðlaununum?

Sander Sagosen sækir að marki Frakka í sigri Norðmanna gegn …
Sander Sagosen sækir að marki Frakka í sigri Norðmanna gegn þeim í Þrándheimi. AFP

Norðmenn eru almennt taldir sigurstranglegastir í milliriðli tvö á Evrópumóti karla í handknattleik þar sem þeir mæta Ungverjum í dag, á eftir leik Íslands og Slóveníu og á undan leik Portúgals og Svíþjóðar.

Danskir og sænskir íþróttafréttamenn eru sammála um þetta og í samtali við VG spá bæði Johan Flinck hjá Aftonbladet í Svíþjóð og Kenneth Thygesen hjá Jyllandsposten í Danmörku því að norska liðið fari alla leið í úrslitaleikinn.

„Ég tel Norðmenn vera sigurstranglegasta í öðrum milliriðlinum og Spánverja í hinum. Spánverjar hafa verið góðir en Norðmenn hafa verið sannfærandi gegn sterkari andstæðingum en þeir spænsku hafa þurft að mæta,“ segir Flinck og spáir Noregi Evrópumeistaratitlinum.

„Þar sem Frakkland og Danmörk eru bæði úr leik á Noregur sögulegt tækifæri til að tryggja sér gullverðlaunin. Sander Sagosen hefur verið frábær en ég býst ekki við að Norðmenn standi uppi sem meistarar. Spánverjar ná í gullið, þeir eru með gríðarlega breidd, sterka vörn og góða markverði, og þekkja hvað þarf til,“ segir Thygesen.

Sander Sagosen, sem margir telja besta handboltamann heims í dag, hefur farið á kostum með norska liðinu og segir við VG að það sé áfall fyrir Frakka og Dani að vera úr leik en segir að Norðmenn hafi frá byrjun verið eitt af sigurstranglegu liðunum.

„Noregur hefur alltaf verið inni í myndinni. Ég tel að þótt Danmörk og Frakkland hefðu komist áfram þá hefðum við samt verið með titilinn í sigtinu. En það er ástæða fyrir því að þessi lið eru fallin úr keppni. Við eigum mjög erfiða leiki fyrir höndum og þurfum að taka með okkur jákvæðu straumana og kraftinn frá Þrándheimi,“ segir Sagosen en norska liðið var á heimavelli í D-riðlinum þar sem það vann Frakka, Portúgala og Bosníumenn.

„Við þurfum að núllstilla okkur. Nú verður EM allt öðruvísi í allt öðru umhverfi. Við erum komnir á nýjan stað en erum alls ekki hættir. Nú byrjar fjörið fyrir alvöru. Við ætlum að halda áfram á okkar ferðalagi og nýta okkur meðbyrinn,“ segir Sander Sagosen.

Íslendingar mæta Norðmönnum í næstsíðustu umferð milliriðilsins á þriðjudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert