Stundum er heppnin með manni

Viktor Gísli Hallgrímsson gerði sér lítið fyrir og varði þrjú …
Viktor Gísli Hallgrímsson gerði sér lítið fyrir og varði þrjú vítaköst í leiknum í dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

 „Þeir spila hægan en samt sem áður hraðan bolta og það er erfitt fyrir okkar varnarleik að eiga við þetta,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir 30:27-tap gegn Slóveníu í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í dag.

 „Þeir eru hrikalega góðir maður á mann og þegar þeir ná að vinna einn þá eru þeir öflugir að losa boltann á næsta mann. Þeir opnuðu vörnina hjá okkur trekk í trekk og þetta var bara erfitt í dag.“

Viktor Gísli átti fína innkomu í markið hjá íslenska liðinu í dag og varði meðal annars þrjú vítaköst í leiknum.

„Stundum er heppnin með manni og stundum detta hlutirnir fyrir mann. Ég horfði á mikið af klippum í aðdraganda leiksins og svo hlustað ég líka á Tommy Svenson markmannsþjálfara sem er alltaf góð regla.“

Íslenska liðið er án stiga í milliriðli 1 og þarf að vinna þá leiki sem eftir eru, ætli liðið sér í forkeppni Ólympíuleikanna í Tókýó 2020.

„Við þurfum að vinna þá leiki sem eftir eru ef við ætlum okkur að halda ólympíudraumnum á lífi, sem hann er klárlega,“ bætti markmaðurinn ungi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert