Þurfum að rífa okkur upp

Viggó Kristjánson var einn af ljósu punktunum í íslenska liðinu …
Viggó Kristjánson var einn af ljósu punktunum í íslenska liðinu í dag og skoraði fimm mörk. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

 „Mér fannst vanta smá neista í þetta hjá okkur í dag,“ sagði Viggó Kristjánsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir 30:27-tap gegn Slóveníu í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í dag.

 „Mér fannst þeir ekkert betri en við og þeir eru ekki með betra lið en við að mínu mati. Markmaðurinn þeirra varði vissulega mjög vel og Dean Bombac reyndist okkur erfiður þótt mér hafi fundist við ráða betur við hann í seinni hálfleik þegar við bökkuðum aðeins. Hann náði samt alltaf að finna liðsfélaga sína og troða sér í gegn og heilt yfir var þetta bara ekki nægilega gott af okkar hálfu.“

Viggó spilaði ekki mikið í leiknum í dag en átti frábæra innkomu í síðari hálfleik þar sem hann skoraði fimm mörk.

„Ég náði að nýta færin sem ég fékk og ég er sáttur með það. Að sama skapi er ég virkilega svekktur með að hafa tapað þessum leik því þetta voru tvö mikilvæg stig. Núna er ekkert annað að gera en að rífa sig upp,“ bætti Viggó við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert