Andlegi þátturinn stór hluti af undirbúningnum

Guðmundur Þórður Guðmundsson var sáttur við sína menn á hliðarlínunni …
Guðmundur Þórður Guðmundsson var sáttur við sína menn á hliðarlínunni í dag. AFP

„Ég er mjög ánægður með leik liðsins og gríðarlega stoltur af spilamennskunni,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 28:25-sigur liðsins gegn Portúgal í milliriðli tvö á Evrópumótinu í Malmö í dag.

„Við höfum legið yfir portúgalska liðinu frá því á föstudaginn og liðið mætti því afar vel undirbúið til leiks. Varnarleikurinn okkar var gríðarlega vel útfærður, strax frá fyrstu mínútu, og markvarslan var mjög góð líka. Við fengum mikið af hraðaupphlaupum og það má alveg segja sem svo að okkar leikplan hafi fengið fullkomlega upp. Sóknarleikurinn var allan tímann frábær og agaður. Það voru kannski fjögur skot, til eða frá allan leikinn, sem hefði mátt ígrunda aðeins betur. Við vorum vel skipulagðir og rétt svör við þeirra varnarleik. Við opnuðum þá trekk í trekk og fengum mjög góð færi sem við nýttum vel. Í síðari hálfleik héldum við ró okkar allan tímann, líka þegar þeir voru að gera sig líklega til þess að koma sér aftur inn í leikinn.“

Aron Pálmarsson í baráttunni í leiknum.
Aron Pálmarsson í baráttunni í leiknum. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Varnarleikurinn til fyrirmyndar

Guðmundur var afar ánægður með varnarleik liðsins í leikstöðunni sex á móti sjö en mörg lið á EM hafa lent í miklum vandræðum með sóknarleik portúgalska liðsins.

„Ég er virkilega ánægður með það hvernig við vörðumst þeim, sex á móti sjö, og það hefur engu liði í mótinu tekist að gera það jafn vel og okkur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þetta lið vann Svíþjóð í síðasta leik með tíu mörkum. Þá slógu Portúgalar Frakkana nánast úr leik þegar þeir lögðu þá að velli í fyrstu umferð riðlakeppninnar og þeir hafa sýnt það leik eftir leik að þeir eru frábært lið. Ég er þess vegna mjög ánægður með það hvernig við mætum til leiks og hvernig leikmennirnir framkvæmdu leikinn sjálfan.“

Alexander Petersson átti mjög góðan leik og var valinn maður …
Alexander Petersson átti mjög góðan leik og var valinn maður leiksins í leikslok. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Refsað fyrir öll mistök

Landsliðsþjálfarinn ítrekar að það hafi farið mikill undirbúningur í andlega þáttinn hjá íslenska liðinu eftir tvö töp í röð á EM, gegn Ungverjum og Slóvenum.

„Við erum búnir að vinna mikið í því hvernig við ætluðum okkur að svara eftir síðustu tvo tapleiki. Við teljum okkur hafa gert ákveðin mistök í síðustu tveimur leikjum, meðal annars farið aðeins fram úr okkur sjálfum. Við gerðum okkur seka um ákveðin mistök og agaleysi sem olli ákveðnum óstöðugleika í okkar leik. Það hefur sýnt sig í þessu móti að þú mátt ekki gera nein mistök og ef þú gerir þau þá er þér einfaldlega refsað. Við fórum vel yfir þetta í aðdraganda leiksins í dag og þótt við höfum vissulega farið gríðarlega vel yfir alla taktík þá var andlegi þátturinn ekki síður stór þáttur í okkar undirbúningi fyrir þennan Portúgalsleik,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert