Enn tapa Svíar á heimavelli

Norski markvörðurinn Torbjoern Sittrup Bergerud ver vítakast í leiknum í …
Norski markvörðurinn Torbjoern Sittrup Bergerud ver vítakast í leiknum í dag en hann átti stóran þátt í sigri Norðmanna. AFP

Norðmenn eru á góðri leið með að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM karla í handknattleik eftir sigur á Svíum 23:20 í Malmö í dag. 

Noregur er með 6 stig í efsta sæti milliriðils II en Svíþjóð er neðst án stig þrátt fyrir að leika á heimavelli. 

Svíar misstu af tækifæri til að setja riðilinn í algert uppnám. Hefðu Svíar unnið hefðu öll liðin í riðlinum verið með annað hvort 4 eða 2 stig. Svo fór þó ekki og Norðmenn voru yfir allan leikinn. Náðu fimm marka forskoti nokkrum sinnum en hristu Svíana aldrei almennilega af sér. Þegar tvær mínútur voru eftir fengu Svíar tækifæri til að minnka muninn niður í eitt mark en brenndu þá tvívegis af dauðafærum. Þeir fóru illa með mörg dauðafæri í leiknum og brenndu til að mynda af tveimur vítaköstum. 

Sander Sagosen var markahæstur hjá Noregi með 8 mörk en Lucas Pellas skoraði 5 mörk fyrir Svía sem leika undir stjórn Kristjáns Andréssonar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert