Hafa ekki mæst á stórmóti í sautján ár

Einar Örn Jónsson skorar fyrir Ísland gegn Portúgal á heimsmeistaramótinu …
Einar Örn Jónsson skorar fyrir Ísland gegn Portúgal á heimsmeistaramótinu í Frakklandi árið 2001 þar sem Ísland hafði betur, 22:19. mbl.is/Golli

Þegar Ísland mætir Portúgal í milliriðlakeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Malmö í dag klukkan 13 verður það fyrsta viðureign þjóðanna á stórmóti í sautján ár.

Portúgalar hafa ekki komist í lokakeppni stórmóts í fjórtán ár, eða síðan þeir léku á EM í Sviss árið 2006. Þar lauk blómaskeiði í handboltanum hjá þeim en Portúgalar áttu mjög harðskeytt lið um og upp úr aldamótunum þar sem leikmenn eins og Carlos Resende, Ricardo Andorinho og Carlos Galambas voru áberandi.

Þeir léku í lokakeppnum HM árin 1997, 2001 og 2003 og í lokakeppni EM 1994, 2000, 2002, 2004 og 2006. Þeirra besta mót var EM í Króatíu árið 2000 þar sem þeir höfnuðu í 7. sæti en þegar þeir voru gestgjafar heimsmeistaramótsins árið 2003 urðu þeir að sætta sig við 12. sætið þrátt fyrir að hafa unnið fjóra af sjö leikjum sínum.

Það var einmitt á HM í Portúgal 2003 sem Ísland og Portúgal mættust síðast en þar vann íslenska liðið sigur í hörkuleik, 29:28. Þjóðirnar háðu marga hörkuleiki á þessum árum, Portúgal hafði betur á EM 2000 í Króatíu, 28:25, en Ísland sigraði 22:19 þegar liðin mættust á HM í Frakklandi 2001. Þá vann Ísland leik liðanna á HM 1997 í Kumamoto í Japan, 20:18.

En þjóðirnar mættust þó sumarið 2016 þegar þær drógust saman í umspili fyrir HM 2017. Þar var um tvo hörkuleiki að ræða, Ísland vann 26:23 í Laugardalshöllinni en Portúgal vann seinni leikinn í Porto, 21:20, tveimur dögum eftir að Ísland og Portúgal gerðu óvænt jafntefli, 1:1, í fyrsta leiknum á EM karla í fótbolta í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert