Ungverjar fyrstir til að vinna Slóvena

Slóvenar réðu ekkert við Bence Banhidi sem skoraði níu mörk …
Slóvenar réðu ekkert við Bence Banhidi sem skoraði níu mörk í leiknum. AFP

Ungverjaland gerði sér lítið fyrir og vann eins marks sigur gegn Slóveníu í milliriðli tvö á EM í handknattleik í Malmö í dag. Leiknum lauk með 29:28-sigri Ungverja en staðan í hálfleik var 16:13, Slóvenum í vil. 

Ungverjar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og þeim tókst að jafna metin í 17:17 eftir 40 mínútna leik. Jafnræði var með liðunum eftir það en þegar tíu mínútur voru til leiksloka náðu Ungverjar þriggja marka forskoti, 25:22, og þann mun tókst Slóvenum ekki að vinna upp.

Bence Banhidi átti frábæran leik fyrir Ungverja og skoraði níu mörk úr tíu skotum. Þá varði Ronald Mikler níu skot í marki Ungverja og var með 30% markvörslu. Jure Dolenec var markahæstur Slóvena með átta mörk í þrettán skotum.

Úrslit dagsins setja riðilinn í þó nokkuð uppnám en Ungverjar fara með sigrinum upp í annað sæti milliriðils tvö í 4 stig, líkt og Slóvenar, en Ungverjar hafa betur þegar kemur að innbyrðisviðureignum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert