Eitt af þremur bestu liðum heims

Guðmundur Þórður Guðmundsson hvetur sína menn á EM í Malmö.
Guðmundur Þórður Guðmundsson hvetur sína menn á EM í Malmö. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, sagði á fréttamannafundi í Malmö í hádeginu að íslenska landsliðið ætti afar erfitt verkefni fyrir höndum á morgun þegar það mætir Norðmönnum í næstsíðustu umferð milliriðlakeppninnar.

Norska liðið er með sex stig eftir þrjár umferðir í milliriðlinum og stefnir hraðbyri í undanúrslitin. Ísland er með tvö stig og eygir enn von um að komast í undankeppnina fyrir Ólympíuleikana en þarf til þess væntanlega að vinna bæði Norðmenn og Svía, auk þess að treysta á hagstæð úrslit annarra leikja.

„Norðmenn eru eitt af þremur bestu liðum heims, miðað við þeirra úrslit undanfarið, og hafa verið mjög sannfærandi. Við þurfum algjöran toppleik til að vinna þá en við munum selja okkur dýrt,“ sagði Guðmundur m.a. á fundinum.

Hann sagði að sigurinn gegn Portúgal í gær hefði unnist að stórum hluta á baráttu, leikgleði og skemmtilegri stemningu og í þá þætti þyrfti að halda til að ná fram hagstæðum úrslitum í þeim leikjum sem eftir eru.

mbl.is