Gengur illa að selja miða á úrslitaleikina

Norðmenn fögnuðu sigri á Svíum sem þar með áttu ekki …
Norðmenn fögnuðu sigri á Svíum sem þar með áttu ekki lengur von um að komast í undanúrslitin á EM. AFP

Enn eru 7.500 óseldir miðar á úrslitaleik Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer í Stokkhólmi á sunnudaginn.

Slök frammistaða sænska landsliðsins sem kemst ekki í undanúrslitin ásamt óvæntu brotthvarfi Frakka og Dana eftir riðlakeppni mótsins þýðir að mótshaldarar eru komnir í mikil vandræði hvað miðasöluna varðar.

Leikið er á 19.000 manna velli í Stokkhólmi og þar fara fram þrír leikir í undanúrslitum og úrslitum um helgina en það þýðir að 57 þúsund miðar voru í boði. Mats Olsson hjá sænska handknattleikssambandinu sagði við NTB að búið væri að selja um 60 prósent af þeim og þar af 11.500 miða á úrslitaleikinn.

Mótshaldarar binda nú vonir við að norskir handboltaáhugamenn bjargi mótinu og flykkist til Stokkhólms um helgina til að styðja við bakið á sínum mönnum.

mbl.is