Ýmislegt í húfi í lokaumferðinni í Malmö í dag

Ísland mætir Svíþjóð í síðasta leik milliriðilsins klukkan 19.30 í …
Ísland mætir Svíþjóð í síðasta leik milliriðilsins klukkan 19.30 í kvöld. Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

Barátta Slóvena og Ungverja um sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik er það sem eftir stendur fyrir leiki dagsins í milliriðli Íslands í Malmö.

Noregur hefur tryggt sér undanúrslitasætið með 8 stig en Slóvenía með 6 stig og Ungverjaland með 4 stig eru í slagnum um að fylgja þeim þangað. Mótherjar liðanna í undanúrslitum verða Spánn og Króatía sem mætast í dag í úrslitaleik hins milliriðilsins í Vínarborg.

Portúgal er enn með í keppninni um fimmta til sjötta sætið og þar með keppnisrétt í undankeppni Ólympíuleikanna. Portúgal og Ungverjaland mætast í fyrsta leik dagsins og þar gætu því úrslitin ráðist. Portúgalar myndu með sigri (eða jafntefli) senda Slóvena í undanúrslit, og þyrftu síðan að bíða eftir úrslitunum í leik Íslands og Svíþjóðar til að komast að því hvort þeir nái þriðja sæti riðilsins eða ekki.

Ef Ísland vinnur Svíþjóð í lokaleik dagsins þurfa Portúgalar að vinna leikinn gegn Ungverjum með fimm marka mun. Ef Ísland vinnur ekki mun sigur, með hvaða markamun sem er, duga Portúgölum til að spila við Þýskaland um fimmta sætið á mótinu og fylgja Slóvenum í undankeppni Ólympíuleikanna.

Viðureign Íslands og Svíþjóðar sem hefst klukkan 19.30 er því fyrst og fremst leikur um heiðurinn en úrslitin geta haft áhrif á niðurstöðu riðilsins. Lið Íslands og Svíþjóðar geta hafnað hvar sem frá sjöunda og niður í tólfta sæti á mótinu.

Noregur og Slóvenía mætast klukkan 17.15 í uppgjöri tveggja efstu liðanna. Slóvenar myndu vinna riðilinn með sigri og stig úr leiknum mun alltaf tryggja þeim undanúrslitasætið, hvernig sem fer hjá Ungverjalandi og Portúgal í fyrsta leiknum.

mbl.is