Hvernig kemst Ísland á stærsta heimsmeistaramót sögunnar?

Ólafur Guðmundsson reynir skot að marki Svía á EM í …
Ólafur Guðmundsson reynir skot að marki Svía á EM í Malmö í gær. Bæði Ísland og Svíþjóð fara í umspil fyrir HM 2021 í júní. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Liðin fjögur sem tryggðu sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik í vikunni, Noregur, Slóvenía, Spánn og Króatía, tryggðu sér um leið sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Egyptalandi í janúar 2021, eða eftir eitt ár.

Það verður stærsta heimsmeistarakeppni sögunnar en þar verða í fyrsta skipti 32 lið í lokakeppninni. Núna liggur fyrir hverjar þrettán af þessum þátttökuþjóðum verða en baráttan um hin nítján sætin verður útkljáð á næstu mánuðum. Tvö þeirra liggja væntanlega fyrir seint í kvöld eins og útskýrt er betur hér í greininni.

Ísland leikur að vanda tvo leiki um HM-sæti í júnímánuði. Vanalega hefur verið dregið í umspilið á lokahelgi EM en það verður ekki gert að þessu sinni, enda verður ekki klárt fyrr en um miðjan apríl hverjar fimm síðustu þjóðirnar í því umspili verða.

Fjórtán Evrópuþjóðir og tvöfalt umspil

Fjórtán af þessum 32 liðum á HM 2021 koma frá Evrópu. Danir eru með keppnisrétt sem ríkjandi heimsmeistarar. Undanúrslitaliðin fjögur, Noregur, Spánn, Króatía og Slóvenía, fara í lokakeppnina í Egyptalandi eins og áður kom fram, og síðan bætast við þau níu lið sem vinna einvígin í umspilinu sem fram fer í júnímánuði en þangað komast 18 lið.

Þar af eru þrettán lið sem enduðu í sætum fimm til átján á yfirstandandi Evrópumóti. Það eru Þýskaland, Portúgal, Svíþjóð, Austurríki, Ungverjaland, Hvíta-Rússland, Ísland, Tékkland, Frakkland, Norður-Makedónía, Sviss, Holland og Svartfjallaland.

Sex neðstu liðin á EM, Úkraína, Serbía, Pólland, Rússland, Bosnía og Lettland, þurfa hinsvegar að fara í umspil í aprílmánuði, ásamt Ísrael, Litháen, Rúmeníu og Tyrklandi. Þar verður leikið um fimm sæti í seinna umspilinu í júnímánuði. Fjögur síðastnefndu liðin unnu undanriðla sem leiknir voru í vetur og lauk nú í janúar.

Án þess að það hafi verið gefið út verður Ísland væntanlega í efri styrkleikaflokknum þegar dregið verður í júníumspilið, ásamt Þýskalandi, Portúgal, Svíþjóð, Austurríki, Ungverjalandi, Hvíta-Rússlandi, Tékklandi og Frakklandi.

Meðal sterkra mótherja sem liðið gæti mætt úr neðri styrkleikaflokknum eru því Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía, Rússland, Úkraína og Pólland.

Elvar Örn Jónsson og Filip Taleski í leik Íslands og …
Elvar Örn Jónsson og Filip Taleski í leik Íslands og Norður-Makedóníu í undankeppni EM á síðasta ári. Þjóðirnar gætu mæst í umspilinu fyrir HM. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Sjö lið frá Afríku

Egyptar verða með á HM sem gestgjafar mótsins og auk þeirra sex efstu liðin á Afríkumótinu sem nú stendur yfir í Túnis. Þar eru Alsír, Angóla og Túnis komin í undanúrslit ásamt Egyptalandi og þar með búin að tryggja sér HM-sæti. Um hin þrjú sætin leika Kongó, Marokkó, Gabon og Grænhöfðaeyjar.

Dagur og Aron koma frá Asíu

Dagur Sigurðsson og Aron Kristjánsson eru komnir á HM 2021 með landslið Japan og Barein sem í dag tryggðu sér undanúrslitasæti á Asíumótinu sem fram fer í Kúveit þessa dagana. Fjögur efstu liðin þar verða fulltrúar Asíu á HM og auk Íslendingaliðanna tveggja eru það Katar og Suður-Kórea sem eru komin með farseðlana.

Fimm Ameríkulið

Fjögur efstu liðin í úrslitakeppni meistaramóts Suður- og Mið-Ameríku sem nú stendur yfir í  Brasilíu fara á HM. Þar eru Brasilía og Argentína nánast örugg áfram, formsatriði fyrir þau að gulltryggja sér farseðlana í leikjum sem eru spilaðir í kvöld, og mestar líkur eru á að Úrúgvæ og Síle fylgi þeim, mögulega Paragvæ.

Þá kemst eitt lið frá Norður-Ameríku og Karíbahafinu í lokakeppnina en um það sæti verður spilað í aprílmánuði. Lið af því svæði hefur ekki leikið á HM síðan Kúba komst þangað árið 2009. Suður-Ameríkuliðin hafa einokað HM-sætin frá þeim tíma en nú fær norðurhluti álfunnar eitt öruggt sæti.

Guðmundur Guðmundsson og Aron Kristjánsson mættust sem þjálfarar Danmerkur og …
Guðmundur Guðmundsson og Aron Kristjánsson mættust sem þjálfarar Danmerkur og Íslands á HM í Katar 2015 en Ísland komst þangað í gegnum "Wild Card". Þeir gætu mæst á HM 2021 sem þjálfarar Íslands og Barein. mbl.is/Golli


Tvö óráðstöfuð sæti

Þar með mun í júnímánuði verða ljóst með 30 sæti af 32 á HM í Egyptalandi. Eftir standa tvö óráðstöfuð sæti, svokallað „Wild Card“ sem IHF, Alþjóðahandknattleikssambandið, hefur til umráða. Ísland naut einmitt góðs af því fyrir HM 2015 og fékk þá keppnisrétt í Katar þrátt fyrir að hafa ekki komist í gegnum umspilið. Eitt þannig sæti var í boði fyrir HM 2019 og Suður-Kórea varð þá fyrir valinu hjá IHF.

Óráðstöfuðu sætin eru tvö að þessu sinni vegna þess að lið frá Eyjaálfu náðu ekki nægilega langt á Asíumótinu sem nú stendur yfir í Kúveit til að verða gjaldgeng á HM. Þar hefðu þau þurft að ná fimmta sæti en Ástralía og Nýja-Sjáland komust ekki í átta liða úrslitin og eru því úr leik í þeirri baráttu. Eyjaálfa hefur ekki átt lið á HM frá 2013 en fast sæti var tekið af álfunni fyrir lokakeppnina árið 2015. Ísland naut góðs af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert