Argentína skoraði 50 og fer á HM ásamt Brasilíu

Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson í leik gegn …
Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson í leik gegn Brasilíu á HM í Þýskalandi fyrir ári þar sem Brasilíumenn höfðu betur. AFP

Brasilía og Argentína tryggðu sér í gærkvöld sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik með auðveldum sigrum á Suður-Ameríkumótinu sem nú stendur yfir í Maringá í Brasilíu.

Argentínumenn burstuðu lið Paragvæ, 50:21, og Brasilía vann Síle örugglega, 32:20. Fáheyrðar tölur litu dagsins ljós í þriðja leik gærkvöldsins þegar Úrúgvæ vann Bólivíu 55:1 eftir að staðan var 24:0 í hálfleik!

Brasilía vann Bólivíu 77:9 í fyrrakvöld þannig að bólivíska liðið á ansi langt í land í íþróttinni.

Aðeins þessi sex lið taka þátt í mótinu og fjögur efstu fara á HM 2021 í Egyptalandi. Brasilía og Argentína eru komin með 6 stig og örugg áfram. Úrúgvæ, Síle og Paragvæ berjast síðan um lausu tvö sætin sem eftir eru. Úrúgvæ er með 4 stig, Síle 2 og Paragvæ ekkert þegar tvær umferðir eru eftir.

Þar með hafa fimmtán þjóðir tryggt sér keppnisrétt á HM 2021 en í fyrsta skipti verða 32 lið í lokakeppninni.

mbl.is