Króatar í úrslit eftir ótrúlega dramatík

Króatar leika til úrslita á EM eftir hádramatískan sigur gegn …
Króatar leika til úrslita á EM eftir hádramatískan sigur gegn Norðmönnum á EM. AFP

Króatía leikur til úrslita á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð eftir afar dramatískan eins marks sigur gegn Noregi í undanúrslitum í Stokkhólmi í kvöld. Leiknum lauk með 29:28-sigri Króata en framlengja þurfti leikinn í tvígang til þess að skera úr um sigurvegara.

Króatar voru sterkari aðilinn framan af og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 12:10. Króatar náðu mest þriggja marka mun í upphafi síðari hálfleiks, 15:12, en þá vöknuðu Norðmenn og þeim tókst að jafna metin. Króatar leiddu með einu marki þegar þrjátíu sekúndur voru til leiksloka en Magnus Jøndal jafnaði metin fyrir Norðmenn og því var gripið til framlengingar.

Liðin skiptust á að skora í fyrri framlengingunni og var staðan 26:26 að henni lokinni. Í síðari framlengingunni gekk báðum liðum illa að skora enda farið að draga vel af leikmönnum beggja liða. Það var svo Zeljko Musa sem tryggði Króötum sigur með marki þegar fjórar sekúndur voru eftir og Króatar leika því til úrslita á EM. 

Domagoj Duvnjak var markahæstur í liði Króata með átta mörk og þá var Marin Sego með ellefu skot varin í markinu. Sander Sagosen var markahæstur í liði Norðmanna með tíu mörk úr sextán skotum en Torbjørn Bergrud varði fjórtán skot í markinu og var með 33% markvörslu. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn í Stokkhólmi og þar mæta Króatar annaðhvort Slóvenum eða Spánverjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina