Fyrirliði Króata sá besti á EM

Domagoj Duvnjak hefur verið valinn sá besti á mótinu.
Domagoj Duvnjak hefur verið valinn sá besti á mótinu. AFP

Króatinn Domagoj Duvnjak var valinn besti leikmaður Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð en hann hefur verið lykilmaður í liðinu sem mætir Spánverjum í úrslitaleiknum í dag. Þá hefur einnig verið birt úrvalslið mótsins en sex þjóðir eiga fulltrúa þar.

Duvnjak er fyrirliði Króata og hefur frammistaða hans á mótinu oft riðið baggamuninn hjá liðinu sem er komið í úrslitaleik EM í fyrsta sinn síðan 2010. Þá er Norðmaðurinn Sander Sagosen í úrvalsliðinu en hann er búinn að skora 65 mörk á mótinu sem er met. Níu þeirra komu gegn Íslandi í milliriðlinum.

Króatía, Spánn og Noregur eiga öll tvo fulltrúa. Igor Karacic og Duvnjak frá Króatíu, Gonzalo Vargas og Jorge Maqueda frá Spáni og Sagosen og Magnus Jøndal frá Noregi. Þá eru Bence Banhidi frá Ungverjalandi og Blaz Janc frá Slóveníu einnig í liðinu.

mbl.is