Sterkur útisigur FH í Mosfellsbæ

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson sækir að marki FH-inga í Mosfellsbæ í …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson sækir að marki FH-inga í Mosfellsbæ í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH vann sterkan 32:28-útisigur á Aftureldingu í Olísdeild karla í handbolta. Afturelding hafði frumkvæðið framan af en FH-ingar voru sterkari í seinni hálfleik. 

Mikið jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 9:9 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá tók við góður kafli hjá Aftureldingu sem náði 13:10-forskoti. Mestur varð munurinn fjögur mörk skömmu fyrir leikhlé, 16:12.

FH-ingar voru hins vegar sterkir í lok fyrri hálfleiks og skoruðu fjögur af fimm síðustu mörkunum og var staðan 17:16 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Markvarslan var lítil sem engin hjá báðum liðum og því frekar mikið skorað.

FH byrjaði seinni hálfleikinn á að jafna í 17:17 og skömmu síðar komst FH yfir, 19:18. Munurinn var orðinn þrjú mörk þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 22:19.

FH komst fyrst fimm mörkum yfir þegar skammt var eftir og átti Afturelding ekki möguleika eftir það. FH fagnaði því afar sterkum útisigri. 

Afturelding 28:32 FH opna loka
60. mín. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson (Afturelding) skoraði mark Hraðaupphlaup. Of lítið og of seint.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert