Erfitt verkefni fyrir Portúgal - Norðmenn í léttasta riðlinum

Portúgal og Noregur mættust á EM og fá afar ólíka …
Portúgal og Noregur mættust á EM og fá afar ólíka riðla í undankeppni Ólympíuleikanna. AFP

Portúgalar, sem slógu í gegn á Evrópumóti karla í handknattleik fyrr í þessum mánuði, fá afar erfiðan riðil í undankeppni Ólympíuleikanna en þeir unnu sér sæti í henni með því að ná sjötta sæti Evrópumótsins.

Þeir unnu m.a. óvæntan sigur á Frökkum í riðlakeppninni í Þrándheimi og komu í veg fyrir að franska liðið með allar sínar stjörnur kæmist í milliriðilinn í Malmö. Þar unnu þeir síðan eftirminnilegan stórsigur á Svíum, 35:25.

Portúgal verður í riðli með Frakklandi, Króatíu og Túnis í undankeppninni en í henni leika tólf lið um sex sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þetta er án efa sterkasti riðillinn af þeim þremur en hann verður leikinn í Frakklandi. Tvö lið úr hverjum riðli komast á Ólympíuleikana.

Þá verða Þjóðverjar, Svíar og Slóvenar saman í riðli sem verður leikinn í Þýskalandi en Alsír er fjórða liðið þar. Þarna verður eflaust gríðarlega hörð barátta um sætin tvö og Svíinn Ljubomir Vranjes freistar þess að vinna landa sína í annað sinn á árinu en hann er þjálfari Slóvena sem komust í undanúrslitin á EM og sigruðu m.a. Svía 21:19.

Norðmenn fá hins vegar nánast ólympíusæti á silfurfati en þeir eru í léttasta riðlinum og verða á heimavelli. Með þeim í riðli eru Brasilía, Síle og Suður-Kórea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert