Stjarnan stal sigrinum

Það var hart tekist á í Grafarvoginum í kvöld. Breki …
Það var hart tekist á í Grafarvoginum í kvöld. Breki Dagsson sækir að vörn Stjörnunnar. Leó Snær Pétursson er við öllu búinn. mbl.is/Árni Sæberg

Tandri Már Konráðsson tryggði Stjörnunni sigur gegn Fjölni 26:25 í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld með marki þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum. 

Stjarnan er nú með 13 stig í áttunda sætinu. Fjölnir er í fallsæti með 5 stig og missti af upplögðu tækifæri til að næla í eitt eða tvö stig. Fjölnismenn voru yfir í leiknum nánast allan tímann fyrir utan þegar jafnt var sem gerðist nokkrum sinnum. Tvívegis náði Fjölnir sex marka forskoti í fyrri hálfleik en það dugði ekki til sigurs. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 15:11 fyrir Fjölni.

Stjarnan komst í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar Tandri skoraði sigurmarkið fjórum sekúndum fyrir leikslok. Garðbæingar stálu því sigrinum en markvörður þeirra Ólafur Rafn Gíslason varði skot þegar rúm hálf mínúta var eftir og Stjarnan fékk síðustu sóknina. 

Ekki kom sérstaklega á óvart að Tandri tæki síðasta skotið en hann hafði spilað virkilega vel í sókninni í síðari hálfleik. Hann skaut Stjörnunni inn í leikinn þegar Stjarnan saxaði á forskotið í síðari hálfleik og skoraði alls 10 mörk í leiknum. 

Sóknin hjá Stjörnunni var hins vegar slök í fyrri hálfleik. Var allt of hægt og ógnanirnar kraftlitlar. Forskot Fjölnismanna var sanngjarnt að loknum fyrri hálfleik. Þeir voru mjög klókir og komu sér í ágæt færi með gegnumbrotum og góðu hornaspili. Breki Dagsson lék mjög vel í sókninni hjá Fjölni og bjó til mörg færi. 

Allt annar bragur var hins vegar á liði Stjörnunnar í síðari hálfleik en liðinu gekk erfiðlega að komast yfir eftir að hafa nokkrum sinnum náð að jafna. 

Fjölnir 25:26 Stjarnan opna loka
60. mín. Fjölnir tekur leikhlé Kári fer yfir sviðið. Afar mikilvæg stig í boði fyrir Fjölni takist þeim að halda rétt á spilunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert