Dramatískur sigur Valsmanna í Eyjum

Finnur Ingi Stefánsson tryggði Valsmönnum sigur gegn ÍBV í kvöld.
Finnur Ingi Stefánsson tryggði Valsmönnum sigur gegn ÍBV í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsarar sóttu tvö stig til Vestmannaeyja í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í frábærum leik þar sem Finnur Ingi Stefánsson skoraði sigurmarkið sjö sekúndum fyrir leikslok. Eyjamenn töldu sig hafa jafnað metin en allt kom fyrir ekki, þar sem skot Elliða Snæs Viðarssonar náði ekki í netið áður en leiknum lauk. Lokatölur 25:26 í frábærum leik.

Eyjamenn keyrðu tempóið hressilega upp í byrjun og Valsararnir fylgdu með, liðin keyrðu miskunarlaust í bakið á hvort öðru eftir hvert mark og hver mistök. Heimamenn léku mun betur í upphafi leiksins og komu sér í fjögurra marka forystu um miðbik leiksins.

Þá hafði það verið góður kafli þeirra varnarlega sem gaf þeim góða möguleika á að keyra hratt í bakið á gestunum. Staðan var 10:6 en þá, án þess að taka leikhlé, náði Snorri að snúa gengi liðsins við með góðum ákvörðunum af bekknum.

Það skilaði sér í 5:0 kafla gestanna þar sem þeir sýndu á sér allar sparihliðarnar. Eftir það kom smá bakslag en Eyjamenn unnu lokakafla fyrri hálfleiks 6:1 og þar af tvö mörk á síðustu 30 sekúndunum, eftir mjög svo kjánalegan sóknarleik gestanna.

Staðan því 16:12 í hálfleik og liðin virkuðu í virkilega góðu formi, þrátt fyrir slæman kafla undir lok fyrri hálfleiks voru gestirnir bjartsýnir fyrir síðari hálfleiknum enda leikurinn hvergi nærri búinn.

Gestirnir voru ekki lengi að snúa leiknum sér í vil en þeir komust yfir þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar. Þeir voru þá búnir að galopna vörn Eyjamanna trekk í trekk og þá hafði markvarsla heimamanna einnig horfið.

Staðan var 17:18 þegar 40 mínútur voru liðnar en þá tóku Kristinn og Erlingur sitt annað leikhlé og freistuðu þess að snúa leiknum sér í vil.

Leikurinn var virkilega jafn þó að gestirnir væru skrefinu á undan en Eyjamenn komust yfir í 23:22 þegar 6 mínútur voru eftir. Lokakaflinn var svo æsispennandi.

Agnar Smári Jónsson snögghitnaði og skoraði tvö mjög góð mörk með stuttu millibili, sem héldu Völsurum skrefi framar, hann klikkaði síðan á skoti þegar rúmar 2 mínútur voru eftir og jafnt. Valsarar stóðu góða vörn og var ruðningur dæmdur á Kristján Örn Kristjánsson.

Með pálmann í höndunum og Ými Örn Gíslason í dauðafæri á línunni tók Snorri Steinn Guðjónsson leikhlé og lagði á ráðin fyrir mögulega síðustu sókn Valsara. Staðan 24:24 og einungis rúmar 60 sekúndur eftir. Anton Rúnarsson kom Val yfir en Gabríel Martinez jafnaði.

Finnur Ingi Stefánsson kom Völsurum yfir en Petar Jokanovic hafði verið með hann í vasanum fram að því, markið reyndist sigurmark. Það stóð þó tæpt því að Elliði Snær Viðarsson kom boltanum í netið en það var sekúndubroti of seint að mati dómaranna og virtist það vera hárrétt ákvörðun.

ÍBV 25:26 Valur opna loka
60. mín. Anton Rúnarsson (Valur) skoraði mark Prjónar sig í gegn, frábær.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert