Öruggt hjá Haukum og Selfossi

Tjörvi Þorgeirsson átti mjög góðan leik fyrir topplið Hauka og …
Tjörvi Þorgeirsson átti mjög góðan leik fyrir topplið Hauka og skoraði átta mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar eru komnir aftur á sigurbraut í úrvalsdeild karla í handknattleik eftir tveggja marka sigur gegn Fram á Ásvöllum í Hafnarfirði í fimmtándu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 23:21-sigri Hauka sem leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 12:9.

Haukar tóku strax frumkvæðið í leiknum og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 12:7. Haukar leiddu allan síðari hálfleikinn og Frömurum tókst aldrei að minnka forskot Hauka, nema á lokamínútum leiksins, sem var of seint í rassinn gripið.

Tjörvi Þorgeirsson skoraði átta mörk í liði Hauka og þá átti Grétar Ari Guðjónsson stórleik í markinu, varði 16 skot og var með 46% markvörslu. Matthías Daðason var markahæstur Framara sem eru með 8 stig í tíunda sæti deildarinnar en Haukar eru á toppnum með 25 stig.

Haukur Þrastarson gerði sér lítið fyrir og skoraði ellefu mörk …
Haukur Þrastarson gerði sér lítið fyrir og skoraði ellefu mörk í Kópavogi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukur með sýningu

Þá fór Haukur Þrastarson á kostum í liði Selfyssinga sem vann fimm marka sigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi. Leiknum lauk með 34:29-sigri Íslandsmeistaranna frá Selfossi en Haukur gerði sér lítið fyrir og skoraði ellefu mörk.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og HK leiddi með einu marki eftir 20 mínútna leik, 10:9. Selfyssingar náðu yfirhöndinni í leiknum eftir það, leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 17:13, og létu forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik.

Einar Sverrisson var einnig atkvæðamikill hjá Selfossi með sjö mörk, líkt og Atli Ævar Ingólfsson en hjá HK voru Símon Michael Guðjónsson og Pétur Árni Hauksson markahæstir með sex mörk hvor. Selfoss er í fimmta sæti deildarinnar með 19 stig en HK er á botninum með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert